top of page

Nam mjóhó renge kjó

Megin iðkun Soka Gakkai búddista er að kyrja Nam mjóhó renge kjó. Það mætti kalla kyrjunina bæn eða möntru sem í kjarnan er lofsöngur um helgi lífsins og möguleika manneskjunar til þess að birta æðstu mannúð í eigin lífi.

 

Nichiren Daishonin (1222-1282) kom á fót iðkuninni að kyrja Nam mjóhó renge kjó sem aðferð til þess að vekja búddaeðlið sem er öllum manneskjum meðfætt og opna þannig fyrir okkar innsta eðli. Þetta innsta eðli býr yfir eiginleikum mannúðar, kærleika, hugrekkis, lífskrafts og samkenndar og þeim skilningi að líf okkar og líf alheimsins eru eitt og hið sama.

Nichiren kenndi þessa bæn fyrst þann 28. apríl árið 1253 í Seicho-ji musterinu í Awa héraði í Japan.

Mjóhó renge kjó er nafnið á Lótus sútrunni og því þýðir Nam mjóhó renge kjó bókstaflega ,,Ég helga líf mitt Lótus sútrunni." En eins og útskýringin hér á eftir sýnir þá hefur hvert tákn mun djúpstæðari merkingu.

Nam

Nam kemur úr Sanskrit og er dregið af orðinu Namu sem þýðir að ,,helga lífi sínu einhverju“." Nichiren kom á fót iðkuninni að kyrja Nam mjóhó renge kjó sem aðferð til að gera öllu fólki kleyft að stilla líf sitt í samhljóm við hrynjandi lífsins eða Dharma.

 

Upprunalega orðið Namu í Sanskrit vísar í framkvæmd eða viðhorf og þýðir því ,,hin rétta framkvæmd og viðhorf“ sem manneskja verður að hafa til þess að opna fyrir búddaeðlið, sinn innsta kjarna, í þessu lífi.

Mjóhó

Mjóhó þýðir bókstaflega hið leynda lögmál—hinn duldi sannleikur eða lögmál sem stjórnar virkni alheimsins og lífum okkar frá hverju augnabliki til þess næsta. Mjó er vísun í kjarna lífsins, sem er ,,ósýnilegur" og nær út fyrir vitsmunalegan skilning okkar. Þessi kjarni birtist okkur ávalt í áþreifanlegu formi (hó). Öll fyrirbæri í alheiminum sem eru í föstu formi (hó) eru breytingum háð, en þau hafa öll innra með sér óbreytanlegan og duldan kjarna sem nefnist mjó.

 

Mjó þýðir einnig að opna, endurvekja og vera fullkomlega gæddur þeim eiginleikum mannúðar sem við verðum að þroska með okkur í lífinu. Saman táknar því mjóhó lífið í allri sinni birtingarmynd, bæði hið leynda og hið ljósa, hið áþreifanlega og hið ósnertanlega. Sem sagt lífið og alla eiginleika þess.

Renge

Renge þýðir lótus blómið. Lótus blómið blómstrar og ber fræ á sama tíma og táknar að orsök og afleiðing verða til á sama tíma. Umhverfi okkar og persónulegar aðstæður ráðast af bæði góðum og slæmum orsökum og afleiðingum sem við sköpum okkur frá einu augnabliki til þess næsta með hugsunum okkar, orðum og verkum. Hugsanir hér þýða ekki þær hugsanir sem skjóta merkingalausar upp í kollinn á okkur hverju sinni, heldur er átt við viðhorf, afstöðu til lífsins og svo framvegis. Þetta er það sem við köllum karma. Lögmál orsaka og afleiðinga staðfestir að við berum sjálf ábyrgð á örlögum okkar. Við sköpum örlög okkar og við höfum sjálf kraftinn til að breyta þeim. Hér er mikilvægt að gera sér grein fyrir að kenningin um karma á ekkert skilt við hefðbundnar vestrænar kenningar um umbun og refsingu.

 

Erfiðleikar og aðstæður sem reyna á okkur eru í sjálfu sér ekki neikvætt karma, þær geta þvert á móti verið mjög jákvætt karma ef þær leiða af sér að manneskjan sigrast á eigin veikleikum og finnur hamingjuna. Hvort eitthvað sé neikvætt eða jákvætt karma ræðst einvörðungu af því hvort það leiðir okkur á endanum til hamingju eða þjáningu. Búddismi kennir að hægt er að umbreyta öllum aðstæðum í jákvætt karma með því að gera jákvæðar orsakir núna. Jákvæðasta orsökin sem við getum gert er að kyrja Nam mjóhó renge kjó; afleiðingin, sem er búddatign, verður samstundis til í djúpt í lífi okkar.

 

Lótus blómið vex og blómstrar í drullugri tjörn en samt sem áður er það ávallt hreint og ósnortið af drullunni. Það táknar hvernig búddaeðlið birtist í lífum okkar sem venjulegar manneskjur sem lifum og hrærumst í daglegu lífi innan um hindranir og erfiðleika

Kjó

Kjó þýðir bókstaflega sútra, eða rödd og kenning Búdda. Það þýðir einnig hljóð, hrynjandi eða titring. Í víðum skilningi, táknar kjó hugtakið að allt í alheiminum er birtingar mynd á hinu leynda lögmáli.

 

Með því að kyrja Nam mjóhó renge kjó erum við því að lofa lífið í allri sinni birtingarmynd með sína óendanlegu möguleika. Við erum að taka ábyrgðina á okkar örlögum í okkar hendur og opna fyrir alla þá jákvæðu eiginleika sem eru okkur meðfæddir og eru okkar innsti kjarni.
 

bottom of page