top of page

Búddismi í daglegu lífi

Að breyta eitri í meðal

Meðlimir SGI tala oft um að „breyta eitri í meðal“ þegar þeir lýsa því hvernig ástundun búddismans hefur gert þeim kleift að breyta erfiðum, neikvæðum eða þjáningarfullum kringumstæðum í eitthvað jákvætt.

Grundvallar merking þess að „breyta eitri í meðal“ er að umbreyta hvötum sem byggðar eru á blekkingum í uppljómun. Í ritinu The Treatise on the Great Perfection of Wisdom sem rakið er til Nagarjuna, sem var indverskur búddískur heimspekingur uppi á þriðju öld, er Lótus sútrunni líkt við „mikilhæfan lækni sem breytir eitri í meðal.“ Það er vegna þess að Lótus sútran opnar fyrir möguleika á uppljómun fyrir fólk sem vegna hroka og sjálfumgleði hefur valdið því að „fræ búddatignarinnar í lífi þess hefur skrælnað.“ Í eldri sútrum hafði slíkt fólk verið fordæmt sem óhæft til að verða búddar. Mikilvægt er að af þessu má draga þá ályktun að enginn er svo vonlaus að honum sé ekki viðbjargandi.

Í riti sínu „Fyrst er ég heyrði kenninguna um hið æðsta farartæki,“ þróaði Nichiren þessa hugmynd þegar hann fullyrti að með því að nota kraft hins leynda lögmáls Nam mjóhó renge kjó getur viðkomandi umbreytt hinum þremur leiðum hvata sem byggast á blekkingum, karma og þjáningum í hinar þrjár dyggðir búdda, það er að segja Dharma líkamann, visku og frelsi.

Hægt er að skilja þetta sem svo að öllum neikvæðum kringumstæðum er hægt að breyta í uppsprettu góðra gilda.
Í grunninn merkir þetta að með því að skora á og yfirstíga þjáningarfullar kringumstæður vöxum við sem manneskjur.

Lykillinn er fólginn í því hvernig við bregðumst við óhjákvæmilegum þjáningum lífsins. Neikvæð, þjáningarfull reynsla er oft nauðsynlegur drifkraftur fyrir okkur. Eitt búddískt rit lýsir veikindum sem hvata til að vekja upp löngun til að leita sannleikans. Á sama hátt hefur fólk sem upplifað hefur stríð og óréttlæti fyllst löngun til að helga líf sitt friði og réttlæti.

Ferillinn, að breyta eitri í meðal, hefst þegar við lítum á erfiðar aðstæður sem tækifæri til að skoða eigið líf, styrkja og þroska hugrekki okkar og samkennd. Því meira sem við erum fær um að gera þetta þeim mun meira vaxa lífskraftur og viska okkar og við birtum sannarlega stórfenglegt lífsástand.
 

Þannig getur þjáning virkað sem stökkbretti til að upplifa dýpri hamingju. Frá sjónarhorni búddismanns inniheldur öll neikvæð reynsla jákvæða grundvallar möguleika. Hins vegar, ef við bíðum ósigur fyrir þjáningum eða bregðumst við erfiðum kringumstæðum á neikvæðan og eyðileggjandi hátt er hinu upprunalega „eitri“ ekki breytt, það heldur áfram að vera eitur.
 

Búddisminn kennir að þjáning eigi rætur sínar að rekja til karma, þeirra orsaka sem við sjálf höfum skapað. Kenning búddismanns um karma fjallar um persónulega ábyrgð. Það er þar af leiðandi á okkar ábyrgð að umbreyta þjáningu í gildisskapandi reynslu. Búddisminn lítur ekki á karma sem óbreytanlegt eða sem forlög – það er jafnvel hægt að breyta dýpstu og rótgrónustu karmísku mynstrum.

Með því að taka erfiðar kringumstæður, til dæmis veikindi, atvinnuleysi, ástvinamissi og svik og nota þær sem tækifæri til að dýpka skilning okkar á persónulegri ábyrgð okkar, getum við öðlast og þróað slíka sjálfsþekkingu sem verður að uppsprettu ávinninga. Búddisminn kennir að sjálfsþekking sé í raun skilningur á okkar eigin takmarkalausu möguleikum, okkar innri styrki, visku og samkennd. Þessir takamarkalausu möguleikar eru „búddaeðlið“ okkar.

Upprunalega merking orðasambandsins „að breyta eitri í meðal“ vísar til þess konar sjálfsþekkingar.

Í kaflanum „Trú og skilningur“ í Lótus sútrunni bregðast Subhuti og aðrir sem höfðu lengi verið fylgismenn Búdda við spádómi um að annar fylgismaður, Shariputra, muni öðlast æðstu uppljómun. Fylgismennirnir viðurkenndu að þeir hefðu fyrir löngu gefist upp á að verða sjálfir búdda en við það að heyra kenningar Lótus sútrunnar sneru þeir frá fyrri afstöðu sinni um uppgjöf og leti. „Hugur þeirra var snortinn sem aldrei fyrr og þeir dönsuðu af gleði.“ Nagarjuna og T‘ien-t‘ai (538--597) líktu þar af leiðandi Búdda við góðan lækni sem fær var um að breyta eitri (leti og uppgjöf aldraðra fylgismanna) í meðal (einlæga löngun til að öðlast æðstu uppljómun búddatignarinnar).

Þessi kenning um möguleikann á grundvallar umbreytingu gerir búddismann að ákaflega bjartsýnni heimspeki. Þessi bjartsýni knýr búddista áfram er þeir leitast við að umbreyta hinum neikvæðu og eyðileggjandi tilhneigingum í lífi sínu, samfélaginu og heiminum öllum.

 

[SGI Quarterly, janúar 2002]



 

bottom of page