Búddismi í daglegu lífi
Að virða fjölbreytileikann
Spurningin um það hvernig við getum lifað í fjölbreyttum heimi hefur ef til vill aldrei verið eins aðkallandi og nú. Ef mannkynið á að lifa af þá er áríðandi að við finnum leið til að umbera skoðanir og gildismat sem er frábrugðið okkar eigin. Þeir valkostir að annaðhvort einangra okkur og hörfa inn á okkar aðskilda svæði eða samræmt gildismat sem er ákvarðað og þröngvað af efnahag og tækni geta varla talist raunhæfir. Aukin tengsl og samskipti á milli ólíkra menningarsamfélaga heimsins virðast óumflýanleg.
Hvernig getum við lært að óttast ekki mismun? Hvernig getum við lært að eiga árangursrík samskipti við þá sem hafa öðruvísi sýn og skilning á heiminum en við höfum? Fjölbreytni getur annað hvort komið af stað átökum og ofbeldi eða gagnkvæmum sköpunarkrafti og framförum. Hvernig getum við tryggt að hið síðara verði ofaná?
Daisaku Ikeda skrifaði í þessu samhengi: „Kenningar Búdda byrja á því að viðurkenna mannlegan fjölbreytileika. … Mannúðarkenning Lótus sútrunnar byggist á því viðhorfi að virða einstaklinginn.“
Samkvæmt búddismanum er hver einstaklingur einstök birtingarmynd hins æðsta sannleika. Vegna þess að hvert og eitt okkar birtir þennan sannleika í formi okkar einstaka persónuleika erum við öll dýrmæt og sannarlega ómissandi hluti af hinum lifandi alheimi.
Í skrifum sínum notar Nichiren samlíkingu á mismunandi ávöxtum trjáa, kirsuber, plómur o.fl. - til að leggja áherslu á þetta atriði. Öll blómstra þau á einstakan hátt, með sínum eigin einstaka karakter. Saman skapa þau stórkostlega árstíðabundna mynd af lífskrafti og fegurð. Nichiren lýsir þessu sem að hvert og eitt „birti sitt sanna eðli“ (Jpn. jitai kensho).
Í búddisma Nichiren Daishonin snýst uppljómun ekki um að breyta okkur sjálfum í eitthvað sem við erum ekki. Frekar er það spurningin um að draga fram þá jákvæðu eiginleika sem við búum þegar yfir.
Það er að þroska viskuna og lífskraftinn til að tryggja að þeir einstöku eiginleikar sem móta persónuleika okkar nýtist til að skapa gildi (hamingju) fyrir okkur sjálf og fyrir aðra. Sem dæmi geta eiginleikar óþolinmæðinnar annaðhvort verið uppspretta pirrings og ágreinings eða drifkraftur skjótra og árangursríkra aðgerða.
Lykillinn hér er sú trú að hver einstaklingur sé einstök birtingarmynd á lífskrafti alheimsins. Sem slíkur býr hver einstaklingur yfir takmarkalausu virði og möguleikum og eðlislægri, friðhelgri reisn. Samt, samanborið við æðsta alheimsfjársjóð lífsins sem er okkur öllum sameiginlegur, hafa sérkenni kyns okkar, þjóðar, menningar eða trúarlegs bakgrunns o.s.frv. aðeins takmarkaða merkingu. Þegar þessi skilningur skýtur rótum getum við lært að yfirstíga fastheldi okkar á mismun og tilfinningum andúðar og ótta.
Rétt eins og hver einstaklingur hefur einstakan persónuleika, einstaka lífsreynslu, er hægt að líta þannig á að hver menningarheimur sé birtingarmynd af sköpunargáfu og visku alheimsins. Á sama hátt og búddisminn hafnar allri flokkun einstaklinga í virðingarstiga, samþykkir hann viðhorf grundvallar virðingar gagnvart allri menningu og hefðum.
Lögmál þess að laga sig að lífsreglum umhverfisins (Jpn. zuiho bini) endurspeglar þetta. Þeir sem ástunda búddisma eru hvattir til að tileinka sér sveigjanlega opna nálgun gagnvart þeim menningalegu aðstæðum sem þeir eru í. Þess vegna, um leið og þeir hafa í heiðri búddíska lögmálið er varðar eðlislæga reisn og helgi mannlegs lífs, þá fylgja þeir staðbundnum siðum og háttum nema þegar þeir stangast beinlínis á við þessar grundvallar lífsreglur.
Samkvæmt þessu starfa samtök SGI um allan heim að því að byggja upp starfsemi sem er í samræmi við og sæmandi þeirri menningarlegu umgjörð og munu leggja af mörkum varanlegt framlag til sinna virðingarverðu samfélaga.
Upprunalegur tilgangur búddismans er að vekja fólk upp til sjá hið ótakmarkaða virði síns eigin lífs og í beinu framhaldi lífi annarra. Að lokum, hæfileiki okkar til að bregðast á skapandi hátt við fjölbreytileika veltur á þeim hæfileika okkar að þroska áþreifanlega tilfinningu fyrir dýrmæti sjálfs lífsins og hverri einstakri birtingarmynd þess.
[SGI Quarterly, apríl hefti 2002]