top of page

Búddismi í daglegu lífi

Bænir í búddisma

Bænir eru þungamiðja ástundunar í búddisma Nichiren. Við heyrum oft meðlimi SGI tengja reynslu sína við að „biðja einlæglega“ eða „að biðja frá dýpstu hjartarótum.“ Þeir tala líka um að bænum þeirra sé „svarað.“ Hvað meina meðlimir SGI þegar þeir eru með slíkar staðhæfingar?

Orðabók Webster skilgreinir bæn sem hátíðlega og auðmjúka nálgun við guðdóm með orðum eða hugsun og hefur venjulega í för með sér einlæga bón, ósk, játningu, lof eða þakkargjörð.
 

Á hvaða hátt er búddískur skilningur á bæninni í samræmi við þessa skilgreiningu og að hvaða leyti er hann frábrugðinn henni?

Bæn virðist vera sammannleg athöfn. Vísbendingar eru um að maðurinn hafi fengist við einhverskonar bænahald allt frá upphafsdögum sínum. Um leið og maðurinn gerði sér grein fyrir vanmætti sínum gagnvart náttúruöflunum, óöryggi um tilvist sína og eiginn dauðleika, hefur hann án efa byrjað að tjá ákafar tilfinningar með bæn, lofi eða þakkargjörð.

Daisaku Ikeda, forseti SGI, hefur sagt í skrifum sínum að trúarbrögðin hafi orðið til út frá bæn, semsagt að viðhorf og athöfn bænarinnar hafi verið á undan trúnni og að sú tilfinning og athöfn að biðja sé undanfari þess forms sem hefðir mismunandi trúarbragða hafi gefið þessari athöfn. Búddísk bæn getur á sama hátt verið hugsuð sem einbeitt tjáning þessara sömu tilfinninga, langana, trúfestu og þakklætis. Þar sem greinir aftur á er sú staðreynd að búddisminn staðsetur hið guðdómlega innra með einstaklingnum. Tilgangur búddískrar bænar er að vekja hina meðfæddu innri getu okkar, styrk, hugrekki og visku, frekar en að biðja til ytri máttarvalda.

Í margri austrænni andlegri iðkun er áhersla lögð á sérstakt form bænarinnar. Fyrir þá sem iðka búddisma Nichiren felur það í sér að fara með hluta af Lótus sútrunni og að kyrja nam mjóhó renge kjó, nafn hins leynda lögmáls sem býr innra með öllu lífi og var sett fram af Nichiren úr titli Lótus sútrunnar. Kyrjað er upphátt til að tjá að bænir í búddisma Nichiren eru ekki eingöngu hugleiðsla inn á við, heldur athöfn sem dregur fram innri kosti okkar til að birta í raunveruleikanum.

Meðlimir SGI beina bænum sínum til virðingaverðs hlutar sem við köllum Góhonson. Góhonson er mandala, táknræn framsetning á fullkomnu lífsástandi búddatignar, eða uppljómunar, þar sem allar tilhneigingar og hvatir lífsins, allt frá hinum lægstu til hins göfugasta, starfa í samhljómi fyrir hamingju og sköpun. Góhonson er ekki skurðgoð eða guð sem er ákallaður eða beðið til auðmjúklega, heldur leið til sjálfsskoðunar og hvati til innri breytinga.

Meðlimir SGI eru hvattir til að gera bænir sínar markvissar, heilsteyptar og beina þeim að vandamálum, vonum og áhyggjum síns daglega lífs. Búddismi Nichiren leggur áherslu á að jarðneskar langanir og uppljómun eru óaðskiljanleg. Nichiren sagði að með því að brenna eldivið langana okkar, með bæn, þá verðum við fær um að endurnýja kraft okkar og lýsa af okkar innri visku.

 

Búddískar bænir eru ferli þar sem áköfum löngunum okkar og þjáningum er breytt í samkennd og visku. Það er þessi stórkostlega samkennd sem við þurfum að rækta með okkur.

Í þessum skilningi felur bænin óumflýanlega í sér sjálfsskoðun sem stundum krefst sársaukafullrar áskorunar á skaðlegar tilhneigingar okkar sem oft geta verið mjög djúpstæðar. Svo við vitnum aftur í Nichiren þá sagði hann „Iðkun þín á kenningum búddismanns mun ekki leysa þig hið minnsta undan þjáningum fæðingar og dauða nema þú skiljir eðli þíns eigin lífs.“

Meðlimir SGI eru einnig hvattir til að líta á bænir sínar sem algjörlega samþættar gjörðum sínum og hegðun í daglegu lífi. Bænir verða einungis sannar þegar við lifum þær. Til að ná árangri í lífinu þurfum við staðfestu og bænir, viðleitni og hugvitsemi.

Í grundvallaratriðum er bænin það ferli að draga fram okkar æðsta lífsástand sem við köllum búddaeðli. Búddaeðlið er möguleiki sem býr jafnt innra með öllum og er grundvallar umhyggja lífskrafts alheimsins.
Bænin er það ferli þar sem við færum líf okkar, einstaklingsins, (hið minna sjálf, með öllum sínum hvötum og löngunum) í takt við hrynjandi lífs alheimsins (hið stærra sjálf). Með því að gera þetta þá leysum við úr læðingi áður ónýtta uppsprettu sjálfsþekkingar, visku, lífskrafts og þrautseigju. Í búddískri heimsspeki er engin aðskilnaður á milli innra lífs manneskjunnar sjálfrar og umhverfisins, því endurspeglast þær breytingar sem gerast innra með okkur í umhverfinu. Sú reynsla að bænum okkar sé „svarað“ er áþreifanleg afleiðing þessa ferlis.

Daisaku Ikeda hefur sagt í skrifum sínum að hið fullkomna form bænar sé í raun heit. Heit um að leggja af mörkum til hamingju annarra og þroska mannlegs samfélags.
 

Það er þetta heit eða loforð um að framkvæma sem stillir líf okkar hvað djúpstæðast í takt við líf alheimsins og birtir okkar æðsta, göfuga sjálf.

[SGI Quarterly, janúar 2001]

bottom of page