© 2020 Soka Gakkai International á Íslandi - Laugavegi 178 - sgi(hjá)sgi.is

  • Facebook App Icon

Búddismi í daglegu lífi

Búddismi og mannleg reisn

Umræða um mannréttindi á sér stað um allan heim, allt frá húsakynnum Sameinuðu þjóðanna til götuhorna fátækra samfélaga. Hún hefur leitt af sér mörg andstæð gildiskerfi og ólíkar heimsmyndir. Einstaklingshyggja gegn samhyggju. Nútímaviðhorf gegn hefð. Austur gegn vestri. Norður gegn suðri. Efnahags- og samfélagslegur réttur, svo sem réttur til atvinnu og boðlegs húsnæðis gegn borgaralegum og pólitískum rétti til frjálsrar ræðu og tjáningar.

Allar kenningar um réttindi einstaklinga sækja stoðir sínar í einhvers konar skilning á mannlegri reisn, jafnvel þegar ekki er verið að tala beint um „mannréttindi.“ Það má segja að einstaklingar meti mannsæmandi meðferð að verðleikum vegna þeirrar mannlegu reisnar sem þeir búa yfir. Mannlegri reisn má lýsa sem innri verðleika sem byggist á þeirri einföldu staðreynd að við erum mannlegar verur.
 

Í mörgum samfélögum, þá sprettur þessi reisn frá guði sem skapaði mannkynið í sinni mynd. Í öðrum samfélögum er okkar einstaka færni til hugsunar og að draga ályktanir sögð vera grunnur okkar mannlegu reisnar. Þrátt fyrir þetta þá er það sífellt algengara að hugmyndin um mannlega reisn sem undirstöðu réttlætis spretti upp frá ákveðinni mannlegri ábyrgð – það að temja sér ábyrg yfirráð yfir náttúrunni og bera virðingu fyrir öllu lífi.
 

Hvaða skilning leggur búddisminn í mannlega reisn? Hvaðan er sá skilningur kominn? Hvað styður og viðheldur honum?

 

Upphafspunktur búddismans er verðmæti og heilagleiki lífsins. Til dæmis segir Nichiren í einu bréfi til fylgismanns síns að einn einstakur dagur lífs sé verðmætari en allir fjársjóðir heimsins. Búddisminn lítur jafnframt á sérhvert líf sem birtingarmynd á lífskrafti alheimsins.

Bengalska skáldið Rabindranath Tagore útskýrði þetta á þessa leið: „Sá straumur lífs sem rennur um æðar mínar daginn út og inn er sá hinn sami sem rennur um heiminn í taktföstum dansi. Það sama líf ryður sér leið upp úr jörðinni í formi óteljandi grasblaða og brýst svo út í kröftugum bylgjum sem laufblöð og blóm.“

Frá sjónarhóli búddismans þá er mannleg tilvist forréttindi sem krefst ábyrgðar samanborið við önnur form lífs sem fyrirfinnast í alheiminum. Eins og Nichiren, lýsir því (og vísar þar til klausu úr Nirvana Sútrúnni): „Það er fátítt að fæðast sem mannleg vera. Fjöldi þeirra sem gefið er mannlegt líf eru færri en þau rykkorn sem komast fyrir á fingurnögl.“

Það sem gerir mannlega tilvist svo einstaka er það valfrelsi sem við höfum, það hversu frjáls við erum að velja að framkvæma til góðs eða ills, til að hjálpa eða skaða.

Nýleg bók sem fjallar um þá áskorun að eldast segir sögu ungrar giftrar konu sem var móðir ungra barna. Hún lenti í þeirri aðstöðu að þurfa að hugsa um rúmfasta tengdamóður sína sem hafði orðið fyrir heilablóðfalli. Í fyrstu skildi unga konan ekki hvers vegna þetta hafði komið fyrir hana, hvers vegna það þyrfti að auka á hennar byrðar, sem voru nægar fyrir. Með búddískri ástundun varð henni ljóst að hún gæti notað þetta sem tækifæri til að skapa gildi í lífi sínu, það færi allt eftir því hvaða nálgun hún tæki á aðstæðurnar. Hún gat breytt þeirri gremju sem hún upplifði í upphafi í garð gömlu konunnar í tilfinningu þakklætis.

Skilingur búddismans á mannlegri reisn á upphaf sitt í þeirri hugmynd að við getum valið okkar leið til fullkomnunar. Við getum í sífellu tekið þær ákvarðanir sem leiða til sköpunar, þroska og breytinga, þótt þær séu oft ekki auðveldastar.

Búddaeðli, eða uppljómun, er lýsingin á þessu ástandi fullkomnunar, ástand þar sem við höfum fullþroskað með okkur hugrekki, visku og samkennd. Þessi hugmynd sem höfð er í heiðri í Mahayana búddismanum er að allar mannverur, í reynd allt líf, hafi innra með sér búddaeðlið og geti birt það.

Hver og einn hefur einstakt hlutverk sem aðeins hún eða hann getur uppfyllt, einstaka sýn að bjóða öðrum, einstakt framlag að gefa. Eins og forseti SGI, Daisaku Ikeda, skrifaði nýlega í bók fyrir framhaldsskólanema:
„Hver og einn hefur sitt hlutverk. Alheimurinn gerir ekkert án tilgangs. Sú staðreynd að við erum til þýðir að við höfum tilgang.“

Gamla konan í sögunni sem vitnað var til gerði einnig sitt besta að nýta sína takmörkuðu getu til að leggja sitt til heimilisins. Þar sem hún gat enn notað hendur sínar byrjaði hún að prjóna, sem ákveðið meðferðarform en einnig til að skapa hluti sem gætu nýst fjölskyldunni. Hún naut þess einnig að gæta heimilisins þegar aðrir voru að heiman.

Búddisminn kennir að við höfum alltaf þann valmöguleika að skapa gildi, jafnvel í erfiðustu aðstæðum. Í gegnum slíkar ákvarðanir getum við uppfyllt okkar einstaka tilgang og hlutverk í lífinu, og þannig birt að fullu þann dýrmæta fjársjóð sem býr innra með okkur, okkar mannlegu reisn. Það er sennilega ekki til sterkari grunnur fyrir mannréttindi en það að almenningur vakni til vitundar um þá mannlegu reisn og virðingu sem býr innra með hverju okkar.

 

[SGI Quarterly, júlí 2000]