© 2020 Soka Gakkai International á Íslandi - Laugavegi 178 - sgi(hjá)sgi.is

  • Facebook App Icon
Búddismi í daglegu lífi

Góðir vinir

Ananda, einn af nánustu fylgismönnum Shakyamuni Búdda, spurði hann eitt sinn: „Mér hefur sýnst svo að með því að eiga góða vini og vaxa með þeim þá sé maður hálfnaður á leið sinni til uppljómunar. Er þetta rétt viðhorf?“

Shakyamuni svaraði: „Ananda, þetta er ekki rétt viðhorf. Það að eiga góða vini og vaxa með þeim fleytir manni ekki hálfa heldur alla leið til uppljómunar.“
 

Þetta kemur hugsanlega á óvart þar sem oft er litið á búddisma sem innhverfa ástundun sem krefst mikils aga. Þá sé heldur litið á aðrar mannverur sem hindrun en ekki hjálp. Hins vegar er það þannig að grunnur þess að líf okkar fái að vaxa og skína er sá að þróa með sér aukna hæfileika í mannlegum samskiptum – nokkuð sem er tölvuvert meiri áskorun en það að þroska með sér heraga. Ástundun búddismans öðlast aðeins merkingu í tengslum við mannleg samskipti.

Ef við lítum svo á að það sé sífelld áskorun og erfitt ferli að bæta líf okkar með ástundun búddismans þá er það mjög eðlilegt að þiggja stuðning frá öðrum sem einnig hafa einsett sér að ganga rétta leið í lífinu og vilja skapa gildi í lífi sínu.

Forseti SGI, Daisku Ikeda skrifaði eitt sinn: „Það að eiga góða vini er líkt og að vera útbúinn kraftmikilli vél. Þegar við komum að brattri brekku eða hindrun, þá getum við stutt hvert annað og fundið styrk til að halda stöðugt áfram.“ Eða eins og Nichiren (1222-1282) skrifaði: „Ekki mun máttfarinn einstaklingur hika ef hann á kröftuga stuðningsmenn en sterkur einstaklingur sem ferðast einn getur misst fæturna á ósléttri grundu…“

Í búddisma Nichirens eru góðir vinir kallaðir zenchishiki sem táknar góð áhrif, á meðan akuchishiki táknar slæm áhrif. Fólk hefur margþætt áhrif á hvert annað og mikilvægt er að þróa með sér hæfileika til að greina eðli þessara áhrifa. Samkvæmt búddismanum eru slæmir vinir þeir sem styrkja okkar veikleika. Sagt með orðum Nichirens: „Slæmir vinir eru þeir sem með ljúfu, blekkjandi og skjallandi orðalagi og málsnilli vinna hjarta þeirra fávísu og eyðileggja hið góða í huga þeirra.“

Jafnvel þótt okkur standi gott eitt til þá eru jákvæð áhrif okkar hvert á annað breytileg. Tsunesaburo Makiguchi, stofnandi Soka Gakkai, notaði eftirfarandi líkingu. Segjum að þú eigir vin sem þarfnast ákveðinnar peningaupphæðar. Það að gefa vini þínum peningana sem hann þarfnast gerir honum sæmilega gott, á meðan það að hjálpa honum að fnna sér starf hjálpar honum enn meira. Ef vinur þinn þjáist virkilega vegna þeirrar tilheigingar að vilja liggja í leti, þá mun sífelld aðstoð þín einungis ýta undir þann neikvæða ávana. Í þessu tilfelli þá væri sönn vinátta sú að hjálpa vini þínum að breyta undirrót þjáningarinnar sem er tilhneigingin til leti.

Sannur vinur er sá sem með samkennd og hugrekki segir jafnvel þá hluti sem við kjósum helst ekki að heyra, þá hluti sem við verðum að horfast í augu við ef við ætlum okkur að þroskast og vaxa í lífi okkar.

Þegar allt kemur til alls þá er það undir okkur komið hvort aðrar manneskjur séu góð eða slæm áhrif á líf okkar. Samkvæmt búddismanum þá er besti zenchishiki sá sem beinir okkur í átt til sterkari trúar og ástundunar þannig að við getum breytt algjörlega okkar karma. Ef við vitnum í Nichiren þá er „besta leiðin til að ná uppljómun að hitta zenchishiki, eða góðan vin.“ Nichiren benti á Devadatta, skyldmenni Shakyamuni sem gerði tilraun til að drepa Shakyamuni og skipta upp búddísku reglunni. Devadatta var „fyrst og fremst góður vinur hins eina sanna Shakyamuni. Á þessum tímum er það einnig þannig að það eru ekki bandamennirnir heldur öflugustu óvinirnir sem styðja framfarir manns.“

Þetta skýrir eitt af grundvallarhugtökum búddismans. Vegna þeirra gríðarlegu umbreytingarkrafta sem fólgnir eru í ástunduninni þá geta jafnvel „slæmir“ vinir haft góð áhrif ef við nýtum tengsl okkar við þá sem tækifæri til að skoða, bæta og styrkja okkar líf. Markmiðið ætti að vera að ná þeirri takmarkalausu samkennd sem Nichiren tjáir í skrifum sínum þegar hann lýsti því að hans fyrsta þrá hafi verið að leiða til uppljómunar þau yfirvöld sem ofsóttu hann, þá sem margoft gerðu hann útlægan og gerðu tilraunir til að hálshöggva hann.

[SGI Quarterly, janúar 2004]