Búddismi í daglegu lífi
Kósen rúfu
Japanska orðasambandið kósen-rúfu er afar mikilvægt hugtak fyrir meðlimi SGI. Það er oft notað sem samheiti yfir heimsfrið og hefur óformlega verið skilgreint sem „heimsfriður í gegnum hamingju einstaklingsins.“ Í víðara samhengi er hægt að skilja það sem sýn á samfélagslegan frið sem næst með víðtækri viðurkenningu á grunngildum eins og djúpri virðingu fyrir reisn mannlegs lífs.
Orðatiltækið sjálft er fornt að uppruna og birtist í 23. kafla Lótus sútrunnar sem segir, „Komið á kósen rúfu um allan heim á fimmta fimmhundruð ára tímabilinu eftir andlát mitt og látið flæði þess aldrei stöðvast.“
Hér er orðasambandið kósen rúfu skrifað með fjórum kínverskum táknum sem mætti þýða hvert fyrir sig sem: „víða,“ „lýsa yfir,“ „flæði“ og „útbreiða“ þannig að bókstafleg merking orðanna væri víðtækt flæði og útbreiðsla -- og notkun -- á þeim kenningum sem er að finna í Lótus sútrunni. Kósen rúfu gefur í skyn nálgun á búddískri ástundun sem er nátengd því sem er að gerast í samfélaginu og um allan heim.
Nichiren (1222-1282) skar sig úr hópi annara búddista hans tíma hvað hann notaði oft þetta hugtak. Þessi áhersla sem Nichiren lagði á kósen rúfu er einkennandi fyrir nálgun hans á búddíska ástundun; að okkar persónulega hamingja -- uppljómun -- er órjúfanlega tengd friði og hamingju annarra manna og samfélagsins í heild. Hann hafnaði þeirri hugmynd að uppljómun væri eitthvað sem við þroskuðum innra með okkur í einrúmi. Hann hafnaði einnig þeirri hugmynd að megin takmark búddismanns væri að safna umbun fyrir lífið eftir dauðann. Það sem þessar tvær hugmyndir eiga sameiginlegt er afneitun á þeirri getu okkar að yfirstíga þjáningu og að umbreyta samfélaginu á jákvæðan hátt. Fyrir Nichiren merkir þetta óásættanlegan viðsnúning frá þeim kjarna búddískra kenninga að fólk sé fært um að höndla ósvikna hamingju í þessum heimi. Báðar þessar nálganir urðu því fyrir gagnrýni hans.
Frá sjónarhorni Nichiren er uppljómun ekki takmark eða leiðarlok í sjálfu sér, frekar grunnur fyrir óeigingjarnar athafnir. Lífsástand búddatignarinnar sem er ástand ótakmarkaðs lífskrafts, visku og samkenndar, er opinberað, viðhaldið og styrkt í gegnum þá skuldbindingu einstaklingsins að leggja sitt af mörkum til velfarnaðar og hamingju annarra. Áhersla Nichiren á kósen rúfu endurspeglaði einnig skilning hans á eðli þess tímabils sem hann lifði á. Því var almennt trúað að „síðari dagar lögmálsins“ (Jp. mappo) væru hafnir. Þeir voru sagðir hefjast 2.000 árum eftir andlát Shakyamuni Búdda (samanber fyrirmælin „ á fimmta fimm hundruð ára tímabilinu eftir andlát mitt“) og var því spáð að þetta myndi verða tímaskeið hnignunar þar sem kenningar Búdda myndu tapa mætti sínum til að hjálpa fólki. Útreikningar japanskra búddista höfðu markað upphaf síðari daga lögmálsins á árinu 1052 og víðtækur uggur var í fólki vegna komu þessa tímaskeiðs.
Ýmsir atburðir sem áttu sér stað virtust staðfesta þessa hnignun og skort á virkni hins búddíska lögmáls. Til dæmis árið 1221 ári áður en Nichiren fæddist hafði keisari nokkur reynt að steypa af stóli ríkisstjórn þar sem samúræar voru ráðandi og fékk söfnuði búddista í lið með sér til að biðja fyrir sigri. Hann var yfirbugaður auðveldlega og eyddi því sem hann átti ólifað í útlegð. Fyrir almenning var það óhugsandi að keisarinn, hið veraldlega yfirvald og opinberir trúarleiðtogar búddisma gætu farið með ósigur. Ofsafengnar náttúruhamfarir, pólitískur ófriður, hungursneið og plágur héldu áfram að herja á landið meðan Nichiren lifði og upp úr þessum jarðvegi þróuðust hugmyndir hans.
Samt sem áður leit Nichiren ekki á hina síðari daga sem tíma uppgjafar og óumflýjanlegra þjáninga, ólíkt mörgum samtímamönnum hans. Hann einbeitti sér hins vegar að þeim köflum í sútrunum sem sögðu fyrir um að hinir síðari dagar myndu verða tími þar sem búddisminn yrði endurlífgaður með nýju sniði og að útbreiðsla hans yrði víðtæk til að gagnast fólkinu. Hann leit með praktískum hætti á hina síðari daga sem tímaskeið þar sem ekki væri lengur raunhæfur valkostur að leita hamingjunnar eingöngu fyrir sjálfan sig. Eina leiðin til hamingjunnar, að hans mati, var að viðkomandi skoraði á virkan hátt á rætur óhamingjunar sem hafði áhrif á allt fólk og samfélagið í heild.
Á okkar dögum er alþjóðavæðingin, hin auknu samskipti og gagnvirku tengsl á meðal fólksins í heiminum, meir og meir að sýna fram á að einstaklingar, hópar og lönd geta ekki notið friðar og hagsældar einangruð og útaf fyrir sig. Sá einfaldi sannleikur að mannkynið muni allt standa eða falla saman er að ná víðtækri viðurkenningu.
Framtíðarsýn um heimsfrið
Sýn Nichiren einskorðaðist ekki eingöngu við Japan. Frá því árið 1273 byrjaði orðasambandið „vestræn endurkoma búddismans“ að birtast í skrifum hans. Þetta orðasamband er nátengt hugtakinu kósen rúfu, og gefur í skyn að búddisminn sem hafði borist austur til Japans myndi að lokum berast (til baka) til Indlands og annarra landa í vestri og ná að lokum til alls heimsins. Árið 1274 gerðu Mongólar fyrstu tilraun sína til að ráðast inn í Japan. Árið 1279 sigruðu Mongólar Southern Song á meginlandi Asíu og bundu þar með enda á það ættarveldi. Margir búddískir prestar flúðu til Japans sem flóttamenn og styrktu myndrænar frásagnir þeirra af innrásinni þann ótta sem ríkti í Japan. Í fyrsta skiptið í sögunni var Japan mitt í hringiðu veraldarsögunnar og skapaði þetta bakgrunn fyrir ákall Nichiren um útbreiðslu kenninga hans langt út fyrir landamæri Japans.
Um leið og hægt er að segja að Nichiren hafi haft sérstöðu meðal japanskra búddista með því að leita eftir alheims viðtöku á hugmyndum sínum þá er þetta langt frá því að vera einsdæmi ef saga trúarbragða heimsins er skoðuð. Mörg trúarbrögð hafa komið fram með skilaboð um lausn fyrir allan alheiminn sem þau hafa síðan leitast við að gera að veruleika með boðun á heimsvísu.
Í þessum skilningi er það mikilvægt að útskýra hvað kósen rúfu er ekki. Það þýðir ekki að allir jarðarbúar, án undantekninga, fari að iðka búddisma Nichiren. Meðlimir SGI, fullvissir um gildi búddisma Nichiren og fúsir til að deila ávinningum sínum með fjölskyldu og vinum, þá er ekki litið á trúna sem algjöra aðgreiningu á milli þeirra sem eru „frelsaðir“ og þeirra sem eru það ekki. Þar sem líf alls fólks er órjúfanlega samtengt á djúpstæðan hátt þá hefur grundvallarbreyting í lífi eins einstaklings jákvæð áhrif á allt það fólk sem viðkomandi einstaklingur hefur samskipti við, sérstaklega þá sem eru honum nánir. Rétt eins og ljós í einum vita getur leiðbeint mörgum skipum til öruggrar hafnar þá getur einstaklingur sem geislar af öryggi og gleði hjálpað mörgum öðrum einstaklingum að finna stefnu í lífi sínu.
Það myrkur sem mest er áríðandi að hrekja burt úr heiminum í dag er sú rótgróna vanhæfni fólks að bera kennsl á göfgi lífsins. Hugmyndafræði sem kennir að sumir einstaklingar séu ekki verðmætir, að í lagi sé að fórna ákveðnu lífi, grefur undan almennum grunni mannlegrar virðingar. Sá misbrestur að kannast ekki við sína sönnu möguleika og eigið verðmæti er ávallt tengt afneitun okkar á þessum eiginleikum í öðrum. Uppspretta ofbeldis er að finna í nagandi skorti á sjálfstrausti.
Fyrir meðlimi SGI merkir kósen rúfu linnulausa viðleitni til að efla gildi mannlegrar virðingar, að vekja allt fólk til meðvitundar um sitt takmarkalausa verðmæti og möguleika. Það er þess vegna sem litið er á viðleitni á sviðum friðar, mannúðar, menntunar og menningarsamskipta sem ómissandi hliðar á kósen rúfu hreyfingunni, því þessir hlutir efla þau gildi sem eru óaðskiljanleg mannlegri hamingju.
Að lokum þarf það að vera ljóst að kósen rúfu merkir ekki kyrrstöðu eða endastöð. Eins og Daisaku Ikeda, forseti SGI, skrifaði árið 1970, „Kósen rúfu merkir ekki endastöð eða að flæði stöðvist heldur er það flæðið sjálft, hjartsláttur lifandi búddisma innan samfélagsins.“
Þessi skilningur gefur ekki í skyn að þegar við náum kósen rúfu tákni það endalok sögunnar eða þeirra óumflýjanlegu átaka og þversagna sem knýr áfram söguna. Frekar má hugsa sér að þetta sé eins og að byggja heim þar sem djúp og víðtæk virðing fyrir lífi manneskjunnar þjóni sem grunnur að þeim vettvangi þar sem unnið er úr málunum á friðsaman og skapandi hátt. Hins vegar er þetta ekki eittthvað sem við getum beðið hlutlaus eftir að gerist.
Búddisminn kennir að þetta sé eitthvað sem við getum byrjað að vinna að núna, hvar sem við erum.
[SGI Quarterly, júlí 2002]