© 2020 Soka Gakkai International á Íslandi - Laugavegi 178 - sgi(hjá)sgi.is

  • Facebook App Icon

Búddismi í daglegu lífi

Mannúðarbyltingin

Búddismi einkennist af áherslum sínum á möguleika innri breytinga - því ferli að kalla fram fulla getu okkar.
Það er skilningur margra að aginn og einbeitingin sem til þarf í slíkt ferli geri kröfu um ákveðnar kjöraðstæður sem ekki eru á allra færi. Búddismi Nichiren kennir aftur á móti að aðeins með því að horfast í augu við hindranirnar sem við stöndum frammi fyrir í harkalegum mótsögnum samfélagsins, getum við breytt lífi okkar og heiminum til hins betra. 

„Mannúðarbylting“ er hugtak sem annar forseti Soka Gakkai, Josei Toda, notaði til að lýsa grundvallarferli innri breytinga, þar sem við losum okkur við hlekki hins „minna sjálfs“ okkar þar sem við erum bundin af eiginhagsmunum og sjálfi (egói) okkar, vöxum í átt að fórnfýsi í átt að „stærra sjálfi“ okkar og verðum fær um að hugsa um og framkvæma fyrir hamingju annarra og að lokum fyrir allt mannkyn.

Eins og forseti SGI, Daisaku Ikeda, útskýrir: „Það eru allskyns byltingar: pólitískar byltingar, efnahagslegar byltingar, iðnbyltingar, vísindabyltingar, listrænar byltingar... en sama hverju er breytt, verður heimurinn aldrei betri svo lengi sem fólkið sjálft... heldur áfram að vera sjálfselskt og skorta samkennd. Í því tilliti er mannúðarbyltingin djúpstæðasta bylting allra byltinga og á sama tíma sú mikilvægasta fyrir mannkynið.“

Spurningin um hvernig maður eigi að breytast á jákvæðan hátt hefur fætt af sér óteljandi kenningar, trúarbrögð og útgáfurisa. Vissulega getur sjálfsagi og erfiði gert okkur kleift að breytast á jákvæðan hátt, til dæmis með því að byrja að hreyfa sig reglulega. En viljastyrkinn sem þarf er oft erfitt að viðhalda; sjálfsstjórnun okkar getur skeikað á mikilvægum tímapunkti vegna þess að við höfum ekki tekið á undirliggjandi, innri orsökum hegðunar okkar.

Mannúðarbylting er sú vinna að umbreyta lífi okkar í kjarna þess. Hún felst í því að bera kennsl á og skora á þá hluti sem koma í veg fyrir fulla tjáningu á okkar jákvæðu möguleikum og mannúð. Búddismi Nichirens er byggður á trú á tært, jákvætt og uppljómað lífsástand sem býr innra með öllu fólki.

Þetta lífsástand „búddatignar“ einkennist af samkennd, visku og hugrekki sem gerir okkur kleift að skapa verðmæti við hvaða kringumstæður sem er. Nichiren gerði sér grein fyrir því að djúpstæðasta ferli breytinga og hreinsunar í lífi okkar gerist þegar við köllum fram þetta ástand og hann kenndi iðkunina að kyrja
„Nam mjóhó renge kjó“ sem beina og tafarlausa leið til að nálgast
og upplifa það
.

Þetta búddaeðli birtist á áþreifanlegan hátt. Fyrst öðlumst við sannfæringu um að líf okkar innihaldi takmarkalausa möguleika og öðlumst djúpstæða tilfinningu fyrir mannlegri reisn okkar. Í öðru lagi þroskum við með okkur visku til að skilja að hlutir sem við töldum áður ómögulega, eru í raun mögulegir. Í þriðja lagi þroskum við með okkur öflugan lífskraft sem gerir okkur kleift að ráða fram úr vandamálum okkar með tilfinningu fyrir innra frelsi. Við erum því orðin fær um að stunda okkar eigin mannúðarbyltingu, þar sem við reynum að bæta „sjálf“ okkar frá gærdeginum til dagsins í dag, gerum „sjálf“ morgundagsins enn betra.

 

Samkvæmt sumum hefðum búddismans geta túlkanir á lögmáli orsaka og afleiðinga beint kastljósinu að neikvæðum orsökum fortíðar. Það getur sýnst taka heila ævi að „hreinsa upp“ þær hindranir og áskoranir sem við mætum í lífinu. Skilaboð Lótus sútrunnar og búddisma Nichiren er að með trú og iðkun getum við afhjúpað búddaeðlið: okkar æðsta, uppljómaðasta lífsástand hér og nú, eins og við erum. Þessi uppljómaða viska gerir okkur kleift að ná tökum á þeim raunveruleika að kringumstæður, sem geta litið út fyrir að vera mjög óheppilegar, hvort sem það er ólæknandi sjúkdómur eða eitthvað sem er hrifsað af okkur, geta í raun verið okkar besta tækifæri til að gera eigin mannúðarbyltingu og orðið stökkbretti fyrir mikilfenglegan persónulegan vöxt okkar.

Þegar við lítum út fyrir okkar persónulegu áhyggjur og aðhöfumst fyrir aðra, styrkist þetta ferli og gerist hraðar. Eitthvað sem áður virtist ósanngjörn byrði getur orðið lykillinn að því að finna tilgang lífs okkar, er við lærum að hjálpa öðrum sem berjast í svipuðum aðstæðum.

Þetta persónulega ferli mannúðarbyltingar er lykillinn að því að hefja breytingaskeið á heimsmælikvarða. Eða eins og Daisaku Ikeda skrifar, „Mikilfengleg mannúðarbylting hjá aðeins einni manneskju mun hjálpa til við að breyta örlögum þjóðar og gera kleift að breyta örlögum alls mannkyns.“

 

Að taka ábyrgð á því að breyta okkar eigin lífi er fyrsta skrefið í átt að því að skapa samfélag, byggt á samkennd og virðingu fyrir mannlegri reisn alls fólks.

 

[SGI Quarterly, júlí hefti 2005]