top of page
Búddismi í daglegu lífi

Samkennd

Grundvallarósk allra manna er að lifa hamingjusömu lífi. Samt er mannlegt samfélag mótað af öflum sem vinna kröftuglega gegn þessari grundvallarþrá: allt frá útbreiddu ofbeldi og skefjalausri eyðileggingu umhverfisins yfir í arðrán sem myndar djúpstæðan ójöfnuð milli fólks.

Búddisminn varpar ljósi á þau innri öfl mannlegs lífs sem leiða okkur inn í slíkan óæskilegan veruleika. Samkvæmt hugmyndum búddismanns er ein skaðlegasta og öflugasta tilhneigingin, sem til staðar er í mannlegu lífi, löngunin til að ráðskast með aðra, hvötin til að beygja annað fólk undir vilja sinn. Við þessar aðstæður birtist egóið í sinni óheftustu og mest eyðileggjandi mynd þar sem aðrir eru einfaldlega verkfæri til að fullnægja sjálfselskum markmiðum þess.
 

Búddisminn persónugerir á táknrænan hátt þessar arðrænandi, ráðríku hvatir sem Djöflakonung sjötta himins. Merki þess má sjá um allan heim. Þegar Nichiren Daishonin (1222-1282), stofnandi þess búddisma sem meðlimir SGI ástunda, bar kennsl á hömluleysi þessarar hvatar lýsti hann heiminum sem vettvang djöflakonungsins og að allt fólk væri undir stjórn þessa djöfuls.

En ef mannlegt eðli er orsök skelfilegustu vandamála heimsins, þá er það einnig uppspretta grundvallar lausnar. Hinn andstæði kraftur þessarar eyðileggjandi hliðar mannlegs eðlis og þeirra þjáninga sem hún orsakar er samkennd. Samkennd, tilfinning um samstöðu með öðrum, með öllu lífi, sem vaknar út frá ósk um gagnkvæma hamingju og vöxt, er kjarni og uppruni búddisma.
 

Í upprunalegum búddískum textum á Sanskrít er hugtakinu samkennd lýst með orðunum maitri og anukamba. Maitri gefur til kynna samneyti við aðra; anukamba lýsir djúpri hluttekningu sem verður til er við stöndum andspænis þjáningu og orsakar viðbrögð. Hægt væri að lýsa búddískri samkennd í stuttu máli sem löngun til að létta þjáningu og gefa gleði.

Oft er litið á samkennd sem eitthvað álíka og meðaumkun en þar sem meðaumkun getur breyst í yfirlæti þá sprettur samkennd hins vegar upp af skilningi á jöfnuði og gagnkvæmum tengslum lífsins. Samkennd á rætur í virðingu fyrir meðfæddri reisn lífsins, okkar eigin og annarra og í lönguninni til að sjá þá reisn fara með sigur af hólmi.
Ikeda, forseti SGI, skrifar: „Sönn búddísk samkennd hefur ekkert með tilfinningasemi eða meðaumkun að gera. Það er vegna þess að tilfinningasemi eða meðaumkun getur ekki hjálpað öðru fólki til að sigra í lífinu; þær geta sannarlega ekki létt þjáningu og gefið gleði.“

Vegna þess að sönn samkennd stendur fyrir því að efla aðra, hjálpa þeim til að leysa úr læðingi styrk og hugrekki innan frá úr lífi sínu, í þeim tilgangi að yfirstíga vandamál sín, getur hún stundum virst hörð eða þversagnarkennd. Sem dæmi, ef það að leysa úr erfiðum kringumstæðum fyrir aðra gerir það að verkum að viðkomandi verður veikari og meira ósjálfbjarga mun það sem virðist vera verk samkenndar ekki stuðla að raunverulegri hamingju þeirra. Kjarni samkenndar er að efla.

Sú viðleitni að bjóða öðrum árangursríka hvatningu inn í tilteknar kringumstæður þeirra dregur fram visku. Samkennd og viska eru þar af leiðandi nátengd. Þar að auki krefst jafnvel minnsta verk góðmennsku hugrekkis.

Nichiren kenndi ástundunina að kyrja Nam mjóhó renge kjó sem hagnýta aðferð fyrir fólk til að draga fram styrk sinn og manngæsku og til að lifa full af sjálfstrausti og gleði. Að deila þessari ástundun með öðrum er þar af leiðandi eitt mikilvægasta form samkenndar fyrir þá sem ástunda búddisma Nichiren Daishonin.
 

Umbreyting á samfélaginu getur aðeins orðið til í gegnum umbreytingu í hjörtum fólksins. Líf byggt á samkennd merkir staðfasta trú á ónotaða möguleika okkar sjálfra og annara. Það er auðvelt að gefast upp á sjálfum okkur og öðrum þegar við stöndum andspænis mistökum okkar og kjánaskap; slíkur skortur á trausti í garð mannkynsins er einkennandi fyrir okkar bagaða heim í dag. Að halda áfram að trúa á og styðja við meðfædda góðmennsku og möguleika okkar sjálfra og annarra er kjarninn í heimspeki búddisma Nichiren Daishonin. Það er einnig grunnurinn að staðfastri bjartsýni sem allt fólk getur byggt aðgerðir sínar á til að koma til leiðar jákvæðum breytingum í heiminum.

 

[SGI Quarterly, júlí hefti 2010]

bottom of page