top of page

Búddismi í daglegu lífi

Sigur eða ósigur

Orðatiltækið „Búddismi er sigur eða ósigur“ passar ef til vill ekki vel við þá almennu mynd af „friðsælli“ búddískri nálgun á lífið. Það getur jafnvel hljómað eins og boð um að stofna til átaka.

Þetta orðatiltæki lýsir hinsvegar ekki ágreiningi á milli fjandsamlegra einstaklinga, heldur frekar þeirri innri andlegu baráttu sem er hluti af lífi okkar. Eins og Daisaku Ikeda, forseti SGI segir: „Alheimurinn, jörðin og okkar eigið líf eru svið fyrir stanslausa baráttu á milli haturs og samkenndar; hinna eyðileggjandi og uppbyggjandi hliða lífsins.“ Áskorun okkar, frá augnabliki til augnabliks, er að halda áfram að berjast við að skapa hámarks gildi og bíða aldrei ósigur eða gefast upp, algjörlega óháð þeim hindrunum sem við stöndum andspænis.

Sú barátta sem við stöndum andspænis getur verið allt frá hversdagslegum hlutum (að hafa sig í að fara út með ruslið eða að skrifa bréf til aldraðs ættingja) til gríðarlega mikilvægra mála (berjast fyrir banni kjarnorkuvopna) en hin eiginlega áskorun er sú sama. Það er að yfirstíga okkar eigin veikleika, ótta eða tregðu á gefnu augnabliki og grípa til aðgerða fyrir hamingju okkar sjálfra og annarra.

sigur.jpg

Hvaða hlutverki gegnir búddisminn í slíkri daglegri baráttu?

Ef allt væri eins og best verður á kosið þá væri enginn aðskilnaður á milli daglegs lífs og búddisma. Búddisminn er ekki til á sviði hins fræðilega og eins og Nichiren skrifaði: „Tilganginn með komu Shakyamuni Búdda, herra kenninganna, í þennan heim er að finna í hegðun hans sem manneskju.“

Nichiren lagði einnig áherslu á að það eru sigrar okkar sem manneskjur, þar með talið bæði áþreifanlegur árangur og siðferðislegir eða andlegir sigrar, sem geta verið ósýnilegir öðrum, sem skipta máli, frekar en viðurkenning í formi starfsframa eða umbunar frá samfélaginu. Í Japan á þrettándu öld var líf fólks algjörlega háð ákvörðunum stjórnvalda eða annarra  yfirvalda, svo það að setja sér eigin persónulegan mælikvarða á árangur krafðist mikils hugrekkis.

Hann skrifaði: „Búddisminn lætur sig fyrst og fremst varða sigur eða ósigur á meðan veraldleg yfirvöld eru byggð á lögmáli umbunar og refsingar. Þess vegna er litið á Búdda sem hetju þessa heims. …“

Gildi sigra okkar byggist einnig á hversu stór áskorunin er sem við tökumst á við. Fyrir meistara í líkamsrækt telst það varla sigur að lyfta þungri ferðatösku. Það er aðeins þegar við yfirstígum okkar eigin takmarkanir að árangur okkar fer að skipta máli fyrir okkur sjálf og vekur  virðingu annarra. Að lifa „öruggu“ lífi þar sem við förum einungis eftir reglum samfélagsins er að svíkjast undan stærri áskorunum, sem fela í sér að lifa þannig að við hámörkum jákvæð, skapandi áhrif okkar og tökumst á við þau öfl sem valda þjáningu og misnotkun.

Til þess að ná árangri þurfum við hugrekki, þrautseigju og andlegan styrk til að þola erfiðleika og standast þau augnablik þegar vonleysið knýr á, hvort heldur sem við vinnum að starfsframa okkar í vinnunni eða hvetjum vin sem er að kljást við þunglyndi. Nichiren leggur áherslu á að ef við erum kjarklítil mun okkur örugglega mistakast og við þekkjum öll hversu ömurlega okkur líður þegar við bíðum ósigur fyrir eigin veikleikum og hugleysi.

Líf Nichiren er dæmi um ofurmannlegt hugrekki frammi fyrir mótlæti og ofsóknum og sú búddíska ástundun sem hann kenndi getur hjálpað okkur að setja okkur skýr markmið og færir okkur einnig aðferðina til að ná þeim.

Fyrir þá sem ástunda búddisma Nichiren þá er það besta sem við getum gert að breiða út dýpri skilning á þeim takmarkalausu möguleikum okkar að birta hugrekki, visku og samkennd, sem fyrirfinnast í lífi okkar allra. Það eru hinir huldu fjársjóðir sem lýst er sem búddatign.

Með því að kyrja „Nam mjóhó renge kjó,“ sem virkjar þessa hæfileika, getum við dýpkað ásetning okkar um að ná markmiðum okkar og byggt upp þann styrk sem er nauðsynlegur til að sigrast á hvaða hindrun sem er, innri eða ytri, sem gæti staðið í vegi okkar. Þegar við sjáum svo sannanir um áhrif sterkra bæna, ásetnings og aðgerða í áþreifanlegum jákvæðum árangri í lífi okkar þá þorum við að takast á við stærri og víðtækari áskoranir og einnig að hvetja aðra til að glíma við sín vandamál með endurnýjaðri von um árangur.

Með orðum Ikeda, forseta SGI: „Búddisminn lætur sig sigurinn varða. Þegar við berjumst við öflugan óvin munum við annað hvort fara með sigur af hólmi eða bíða ósigur, það er enginn millivegur. Að berjast gegn neikvæðum öflum lífsins er óaðskiljanlegur hluti af búddismanum. Það er í gegnum sigur í þeirri baráttu sem við verðum búdda.“

 

[SGI Quarterly, júlí hefti 2007]

bottom of page