top of page

Búddismi í daglegu lífi

Þakklæti

Fjölbreytt framlag ótal manna styður við og hlúir að lífi okkar. Að baki þeim margvíslegu atriðum, sem styrkja og bæta daglega tilveru okkar, allt frá matnum sem við borðum til þeirra afurða og þæginda sem við njótum, býr framlag margra einstaklinga. Á hverju augnabliki styður umhverfið okkur og gerir líf okkar mögulegt. Þakklæti er gleðirík viðurkenning á þessari staðreynd.

Þó að sú ábending að „þakka fyrir það sem við erum blessuð með“ geti virst útslitin klisja, þá getur þakklæti fyrir það sem er gott í lífinu, hjálpað okkur að sjá hlutina í réttu ljósi og gefið okkur kraftinn sem við þurfum til að mæta og yfirstíga þær hindranir sem mæta okkur. Í þessum skilningi er þakklæti lykillinn að því að stækka líf okkar og sjá það í víðara samhengi. Að finnast maður metinn að verðleikum orsakar alltaf hærra lífsástand og víðara sjónarhorn. Og því stærra sem líf okkar verður því djúpstæðara þakklæti upplifum við, jafnvel upp að því marki að við getum fundið fyrir þakklæti fyrir þær hindranir sem við mætum í lífinu.

apple-in-hands.jpg

Daisaku Ikeda, forseti SGI, hvetur ungt fólk, oft og iðulega til að takast á við erfiðar áskoranir í þeim tilgangi að vaxa. Það að geta litið til baka, á þá baráttu sem við höfum háð, með þakklæti er sönnun fyrir andlegan sigur okkar. Að geta fagnað jafnvel erfiðustu kringumstæðum með þakklætistilfinningu, sem á rætur sínar í sigurvissu, er tjáning hins frjálsa og óhefta lífsástands búddaeðlisins. 

Það er af þessari ástæðu sem búddíski 13. aldar presturinn Nichiren gat sagt að hann fyndi fyrir hinu dýpsta þakklæti gagnvart Hei no Saemon-no-jo, þeim embættismanni stjórnarinnar sem ofsótti hann sem mest og reyndi að láta drepa hann. Það var einmitt vegna ofsókna Hei no Saemon-no-jo sem Nichiren gat reynt og sannað kraft sannfæringar sinnar og dregið fram sinn innri styrk og fundið sinn tilgang.

Bréf Nichiren til fylgismanna sinna byrja næstum allaf á nákvæmum og hjartnæmum þökkum fyrir gjafir þeirra og stuðning. Með því að vitna í ýmis dæmi úr sögunni skrifar Nichiren um þakklæti sem nauðsynlegan hluta af mannúð okkar.  Daisaku Ikeda hefur lýst því sem innsta kjarna búddimans.

Aftur á móti er vanþakklæti afsprengi þeirrar hrokafullu ranghugmyndar að við séum algjörlega óháð og aðskilin hvert frá öðru og umhverfi okkar. Að missa sjónar á því að við erum í raun og veru háð hvert öðru gerir það að verkum að við verðum niðurrífandi öflum öfundar og græðgi að bráð.

Nichiren lýsir þremur hópum fólks sem við eigum líf okkar að þakka og stöndum í þakkarskuld við. Þetta eru, á málfari hans tíma, þjóðhöfðinginn, kennarinn og foreldrið. Þakklæti gagnvart foreldrum okkar er undirstaðan þar sem þeir gáfu okkur lífið og tengdu okkur þessu mikla neti tilverunnar. Kennarinn í búddísku samhengi vísar sérstaklega til leiðbeinanda í iðkun og trú. Í víðara samhengi vísar það til mikilvægi menntunnar í lífi okkar og allra þeirra sem hjálpa til við að móta persónuleika okkar með jákvæðum áhrifum sínum. Þjóðhöfðinginn vísar til samfélagsins sem við lifum í, hlúir að okkur og verndar.

Í þessum skilningi hafa þjóðhöfðinginn, kennarinn og foreldrið, öll það hlutverk að hlúa að lífinu. Það má jafnvel skilja sem svo að þau standi fyrir grundvallar samkennd alheimsins eða þeirra miklu löngunar lífsins að uppfylla alla sína möguleika.

Að viðhalda þakklæti tengir líf okkar við þessa þrá. Að virða og framkvæma samkvæmt þessari þakklætistilfinningu þ.e. að „endurgjalda þakkarskuld sína,“ er að framkvæma í samræmi við ætlun alheimsins. Það er að leggja á sig erfiði til að þroska persónuleika okkar, að styðja það sem umfaðmar lífið og rísa gegn því sem vanvirðir það, að framkvæma í hugrökkum og mannúðlegum anda. Þannig birtist mannúð okkar og  mannleg reisn á sinn fegursta hátt. Það mætti líta á þetta sem kjarna trúarinnar. Þetta er grundvallaratriði í því sem SGI hreyfingin einbeitir sér að. Þar sem athyglin beinist að þeirri spurningu hvað hvert okkar getur gert núna til þess að aðrir í kringum okkur njóti góðs af framlagi okkar. Friður og umbreyting samfélagsins hefst á því að við framkvæmum í þessum anda í okkar nánasta umhverfi.

 

[SGI Quarterly, júlí hefti 2009]

bottom of page