Búddismi í daglegu lífi
Trú og skynsemi
Almennt er litið á trú eða trúarkenningar og skynsemi sem andstæður. Margt fólk lítur á hvers konar trú, sérstaklega trú tengda trúarbrögðum, sem nokkurs konar hnignun skynseminnar og hækju þess vitsmunalega. Hinsvegar hafa þessi skörpu skil á milli trúar og skynsemi, sem hafa verið aðalsmerki nútímalegrar hugsunar, verið endurmetin upp á síðkastið.
Tuttugustu aldar heimspekingar eins og Ludwig Wittgenstein og José Ortega y Gasset hafa bent á að öll lifum við, framkvæmum og hugsum innan ramma trúarkerfis sem er að mestu ómeðvitað, en án þess myndum við ekki vera fær um neina hugsun eða framkvæmd. „Trú okkar er þegar að verki djúpt í lífi okkar um leið og við byrjum að hugsa eitthvað“ skrifar Ortega y Gasset. Skynsemi er því grundvölluð á trú. Ef trú er grundvöllur lífsins, eigum við í raun ekki val um hvort við trúum eða ekki. Við getum hinsvegar valið hverju við trúum og hver undirstaða trúar okkar er.
Í búddískri hefð hefur samband trúar og skynsemi verið viðfangsefni frá fornu fari. Um leið og þessi hefð hefur alltaf haldið því fram að ekki sé hægt að höndla eða útlista algjörlega uppljómun Búdda með skynsemi eða töluðu máli þá hefur búddisminn alltaf haldið því fram að skynsemi og talað mál skildu vera í hávegum höfð.
Á sama tíma og uppljómun Búdda gæti verið hafin yfir svið rökhyggjunnar, þá er hún hvorki órökrétt, né stendur gegn röklegri eða skynsamlegri hugsun.
Trú í kenningum Búdda er í raun grunn aðferð til vitsmunalegrar athugunar og inniheldur ekki aðeins getu til að greina hluti, heldur leitast einnig við að þróa visku innsæis byggða á dýpstu andlegu sviðum manneskjunnar. Lærdómur og þekking geta þjónað
sem gáttir að viskunni en það er viskan sem gerir okkur fær um að
nota þekkingu þannig að hún hafi mannúðleg gildi. Það má segja að ruglingurinn á milli þekkingar og visku sé rót afskræmingar samfélagsins.
Á sama máta þróaði Niciren kenningar sínar og setti þær fram á mjög rökvissan hátt. Hann var þekktur fyrir þá fræðslu sem hann sótti sér og fúsleika sinn til að taka þátt í rökræðum. Mörg mikilvægustu rit hans taka á sig form samræðna þar sem spurningar og svör eru sett fram og efasemdir bornar fram og leiddar til lykta.
Sraddha, prasada og adhimukti eru þrjú hugtök í sanskrít sem þýdd eru í Lótus sútrunni sem „trú“ eða „trúarkenning.“ Sraddha, er skilgreint sem fyrsta stig búddískrar ástundunar og merkir „að vekja trú“ og einnig „að búa yfir forvitni.“ Þetta hugtak inniheldur líka merkingu þess að finna til lotningar eða undrunar sem virðist vera rót allra trúarlegra hugrenninga.
Prasada lýsir hugmynd hreinleika eða skírleika. Hægt væri að segja að frá sjónarhorni búddismanns væri hinn raunverulegi tilgangur trúar að hreinsa hugann til að gera meðfæddri visku okkar kleift að birtast.
Adhimukti merkir bókstaflega ásetningur, það er afstaða viðkomandi hugar eða vilji. Þetta er hið huglæga viðmót þess að dýpka skilning viðkomandi, að leggja rækt við og fægja líf viðkomandi til að fullkomna hið háleita ástand prasada. Þannig hreinsar trúin rökhyggjuna, styrkir hana, upphefur hana og er drifkraftur til stöðugrar sjálfsbetrunar. Daisaku Ikeda hefur skilgreint trú sem „opinn og leitandi huga, hreint hjarta og sveigjanlegt hugarfar.“
Hægt er að bera saman þessi hugtök við bhakti, sem er annað hugtak úr sanskrít sem merkir trú. Bhakti merkti upphaflega „að verða hluti af,“ sem er trú samtvinnuð þeirri ástundun að gefast upp fyrir og sameinast guði handan okkar heims. Þetta hugtak er mjög sjaldan ef nokkurn tíma notað í búddískum ritum.
Nú á tímum er litið svo á að vitsmunir séu sjálfstæður hlutur, sem virki alveg sjálfstætt og óháð tilfinningu og trú. Það hefur samt orðið æ ljósar að margar stefnur, eins og sú viðleitni að beita tæknilegu valdi gagnvart náttúrunni, byggja á ákaflega huglægri trú eða gildismati.
Það sem kallað er eftir í dag er nýr samruni trúar og skynsemi sem umlykur allar hliðar mannfólksins og samfélagsins, þar með talið það innsæi sem nútíma vísindi leggja til. Þetta þarf að vera tilraun til að endurreisa heildrænt, mannlegt samfélag sem hefur verið klofið í sundur af öfgum skynseminnar, tilbúnum klofningi frá trú og óraunhæfu ofstæki trúarbragða.
Þessi samruni þarf að spretta út frá samræðum byggðum á gagnkvæmri virðingu. Báðar hliðar þurfa að koma að þessum umræðum, ekki með því hugarfari að leggja grunn að yfirráðum yfir hinni hliðinni, heldur með hugarfari lærdóms, með hugarfari þess að grafa eftir dýpri og auðugri uppsprettum sannleikans. Þetta mun aðeins vera hægt ef allir aðilar sem að þessu standa halda fast í það markmið að gera manneskjuna hamingjusamari. Getur einhver sérstök afstaða, nálgun eða trú bætt mannlegar aðstæður eða munu þær aðeins versna? Aðeins á þessum grunni geta samræður á milli trúar og skynsemi leitt af sér sönn og varanleg gildi fyrir mannkynið.
[SGI Quarterly, október 2001]