top of page

Búddismi í daglegu lífi

Umræðufundirnir

Umræður, samskipti og samræður hafa alltaf verið mjög mikilvæg í því ferli sem hjálpar fólki að dýpka skilning sinn og þakklæti á búddismanum.

Stórar samkomur geta verið áhrifamikil leið til að koma skilaboðum á framfæri. Á sama hátt geta miðlar líkt og prentmiðlar útvegað fólki mikilvægar upplýsingar og hvatningu. Aftur á móti er hætta á því að þetta verði samskiptaleiðir þar sem upplýsingarnar flæða bara í aðra áttina. Innan trúarhreyfinga sérstaklega, getur slíkt upplýsingaflæði orðið til þess að einskonar valdamynstur verður til milli þeirra sem kenna og þeirra sem nema, þrátt fyrir góðan ásetning. Þetta getur orðið til þess að fólk finni fyrir vanmáttartilfinningu og verði þar af leiðandi háð leiðtogum sínum eða kennurum. Ef hið sanna markmið trúar er að gera fólki kleyft að njóta æðstu hamingju er lífsnauðsynlegt að gera allt sem hægt er til að komast hjá því að svo verði.

page180-businesspeople-standing-together

[© Imagezoo/Getty Images]

Samræður innan lítilla hópa gera fólki kleyft að spyrja, láta efasemdir sínar í ljós og fá svör við þeim. Þetta er lærdómsferli sem allir í hópnum taka þátt í og það heldur áfram á þeim hraða sem er þægilegur og hentugur öllum þátttakendum. Frá sjónarhóli búddískrar mannúðarstefnu er sannleikurinn ekki einkaeign sérstaks einstaklings eða hóps. Sannleikurinn er frekar eitthvað sem allir hafa jafnan aðgang að. Hann er uppgötvaður í gegnum stöðug samskipti við annað fólk og honum er deilt gegnum sífellt stækkandi vef samkenndar meðal fólks. Slík samskipti, byggð á jafnræði, eru deiglan þar sem manngæska okkar mótast.

 

Búddíski umbótasinninn Nichiren Daishonin (1222-1282), sem setti fram þær kenningar, sem eru hvatinn að starfi SGI, hafði slíkar samræður og fræðslu í hávegum. Af skrifum hans er það ljóst að nemendur hans söfnuðust reglulega saman til að fræðast um hin ýmsu rit búddismans. Nichiren leit svo á að slíkar umræður væru nauðsynlegar til þess að koma rétt til skila ásetningi sínum. Hann byrjar eitt bréf, sem skrifað var á tímum mikilla ofsókna, á þessum orðum: „Þeir sem eru ákveðnir í að fylgja þessari leið, ættu að safnast saman og hlusta á innihald þessa bréfs.“
 

Smáir umræðufundir hafa verið undirstöður Soka Gakkai síðan á fjórða áratug síðustu aldar. Stofnandi og fyrsti forseti samtakanna, Tsunesaburu Makiguchi, ferðaðist um Japan þvert og endilangt til að taka þátt í slíkum fundum. Hann sótti um 240 fundi lítilla hópa á tveggja ára tímabili, á efri árum sínum, þrátt fyrir að trúfrelsi ætti undir högg að sækja vegna hernaðaryfirvalda þess tíma.
 

Í dag eru umræðufundir SGI haldnir í öllum heimshornum, venjulega einu sinni í mánuði. Mikill meirihluti þessara funda eru haldnir hjá meðlimum sem opna heimili sín í þessum tilgangi. Þátttakendur eru konur og menn, börn og eldra fólk úr öllum stigum samfélagsins, með ólíka menntun og fjárhagslegan bakgrunn.

Fundirnir eru venjulega haldnir eftir landfræðilegri staðsetningu í hverju hverfi fyrir sig sem gerir fólki kleyft að mynda tengsl, sem eru sífellt fátíðari í þéttbýlissamfélagi nútímans þar sem fólk býr oft í mörg ár sem nágrannar án þess að eiga nein persónuleg samskipti. Umræðufundir eru opnir öllum og leiða saman fólk, sem myndi líklega annars aldrei hittast í þjóðfélögum þar sem fólk er aðskilið ýmist með sýnilegum eða ósýnilegum línum. Allir, þar á meðal börn og þeir sem eiga erfitt með að tala fyrir framan aðra, eru hvattir til að tjá sig, til að leggja til málanna skoðanir sínar eða viðbrögð.
 

Að deila trúarreynslu með öðrum, það er þeim breytingum sem fólk hefur upplifað gegnum búddíska iðkun, er miðpunktur umræðufundanna. Það er líklega ekkert sem hughreystir fólk, sem á í miklum vandræðum, meira en reynslur þeirra sem hafa horfst í augu við og sigrað hindranir sínar. Það er létt yfir bestu umræðufundunum og þeir eru fullir af gagnkvæmri hvatningu.
 

Búddísk fræðsla er annar mikilvægur þáttur. Einstaklingar eða hópar geta undirbúið erindi um ákveðin þemu eða hugtök, sem gefa tóninn fyrir frekari umræður. Gestir eða aðrir áhugasamir sem vilja læra meira um búddismann eru hvattir til að koma með athugasemdir og spyrja spurninga.
 

Ikeda forseti SGI hefur lýst mikilvægi umræðufundanna í nútíma samfélagi með þessum hætti: „Menningu hins venjulega fólks, sem er fullt af andagift og staðfestu, er að finna í samskiptum og tjáskiptum milli einstaklinga, frá rödd til raddar, í samkomu fólks þar sem hrein mannúð birtist í samskiptum einstaklinga. Nútímasamfélag er flóð innantómra upplýsinga. Þess vegna er svo áríðandi að deila lifandi tungumáli, raunverulegum röddum fólksins, slíkt getur verið mikilvægt framlag til að stuðla að heilbrigði samfélagsins.“

 

[SGI Quarterly, apríl hefti 2007]

bottom of page