top of page

Búddismi í daglegu lífi

Uppljómun kvenna

Í mörgum sútrum búddismans var það kennt að konur gætu aldrei orðið Búdda. Í einni sútrunni segir, „Jafnvel þótt augu Búdda hinna þriggja tilvista myndu falla til jarðar gæti engin kona af hvaða sviði tilverunnar sem er nokkurn tímann öðlast búddatign.“
 

Þetta endurspeglar án nokkurs vafa ríkjandi skoðanir í garð kvenna á Indlandi á fimmtu öld f.k. þar sem litið var á þær meira og minna sem eign eiginmanna þeirra. Samt sem áður er sagt að viðbrögð Shakyamuni við beiðni frá frænku sinni og fleiri konum hafi verið að hann leyfði að konur yrðu nunnur og mættu ástunda í klaustrum eftir að hann samdi átta reglur sem þær þurftu að fylgja.

Samkvæmt indverskum rannsóknum sérfræðingsins Dr. Hajime Nakamura þá var „stofnun nunnureglu [í búddisma] undraverð þróun í heimi trúarbragðarsögunnar. Engin slík trúarregla kvenna fyrirfannst í Evrópu, Norður-Afríku, Vestur- eða Austur-Asíu á þessum tíma. Fyrstu hefðbundnu trúarbrögðin sem hófu slíka starfsemi var búddismi.“

Hins vegar, á næstu öldum byrjaði ríkjandi skilningur á stöðu konunnar að breytast og því var almennt trúað að konur þyrftu að endurfæðast sem menn og inna af hendi endalausa þjáningarfulla ástundun áður en þær væru færar um að öðlast búddatign. Bhikshuni sangha, regla búddískra nunna, hnignaði og hvarf næstum því. 

Nichiren, búddískur munkur á þrettándu öld, sá hinn sami sem setti fram þær kenningar sem meðlimir SGI fylgja, trúði staðfastlega á jöfnuð karla og kvenna. Hann skrifaði, „Það ætti ekki að fyrirfinnast nein mismunun á meðal þeirra sem útbreiða fimm tákn Mjóhó renge kjó á síðari dögum lögmálsins, hvort heldur um er að ræða karla eða konur.“ Þetta var byltingarkennd yfirlýsing á þessum tíma, þegar konur voru nánast algjörlega háðar mönnum. Ritið „þrjú form hlýðni“ sagði fyrir um að japanskar konur ættu fyrst að hlýða foreldrum sínum; síðan ættu þær að hlýða eiginmönnum sínum; og að lokum er aldurinn færðist yfir þær ættu þær að hlýða sonum sínum. 

Nichiren sendi hvatningu í formi bréfa til margra kvenkyns fylgismanna sinna og gaf mörgum þeirra titilinn „Shonin“ eða heilög manneskja. Sá trúarlegi styrkur og það sjálfstæða hugarfar sem þessar konur sýndu höfðu mikil áhrif á hann. Hann skrifaði til Nichimyo Shonin: „Aldrei hef ég heyrt um konu sem ferðaðist þúsund ri í leit sinni að búddismanum eins og þú hefur gert. … þú ert án nokkurs efa fremst fylgismanna Lótus sútrunnar á meðal kvenna í Japan.“

Í tólfta kafla Lótus sútrunnar (Devadatta kaflanum) sem Nichiren vísar í sýnir Shakyamuni fram á að búddatignin er innan seilingar „jafnvel“ fyrir konur. Þar er sagt frá því að átta ára gamall kvenkyns dreki hafi verið fær um að öðlast búddatign mjög fljótt með því að ástunda Lótus sútruna.

Þessi stúlka, oft þekkt sem dóttir drekakonungsins í sútrunni, birtist og sýnir á dramatískan hátt uppljómun sína og undirstrikar um leið þá grundvalldarreglu að einstaklingur geti orðið Búdda í núverandi formi sínu. Hún umturnar þeirri ríkjandi skoðun að aðeins sé hægt að uppljómast eftir að hafa ástundað á þjáningafullan hátt í óhemju langan tíma. Drekastúlkan hefur form dýrsins; hún er kvenkyns; og hún er mjög ung. Það að hún skildi vera sú fyrsta til að sýna fram á að hægt væri að öðlast tafarlausa uppljómun er athyglisvert.

Nichiren leggur áherslu á að „… kenningin um að konur öðlist búddatign sé fremst meðal kenninga Lótus sútrunnar.“

Í öðru bréfi segir hann líka, „Þegar ég, Nichiren, les aðrar sútrur en Lótus sútruna þá hef ég ekki neina löngun til að verða kona. Ein sútran fordæmir konur sem útsendara helvítis. Önnur lýsir þeim sem stórum snákum. … Aðeins í Lótus sútrunni lesum við um að konur sem tileinki sér þessa sútru muni ekki aðeins bera af öllum öðrum konum heldur einnig öllum mönnum.“ Nichiren hét því að deila þessum skilaboðum vonarinnar í Lótus sútrunni með öllum konum í Japan.

Búddisminn lítur svo á að munur byggður á kyni, kynþætti og aldri sé til staðar til að auðga lífsreynslu einstaklingsins og mannlegs samfélags í heild. Lótus sútran er stundum kölluð kenning án mismununar, vegna þess að hún sýnir að búddatignin er meðfædd í öllum fyrirbærum lífsins. Það er engin munur á milli karla og kvenna er varðar getu þeirra eða hæfileika til að öðlast búddatign, þar sem bæði eru jafn mikill vitnisburður um hinn æðsta veruleika. Ef við hugleiðum eilífð lífsins er það einnig ljóst að við getum fæðst sem karl í einu lífi og sem kona í öðru lífi.

Daisaku Ikeda segir, „Það mikilvæga er að bæði konur og karlar verði hamingjusöm sem manneskjur. Að verða hamingjusamur er takmarkið, allt annað er leið að markinu. Grundvallaratriði í ‘yfirlýsingu um rétt kvenna’ í Lótus sútrunni er að hver einstaklingur hefur meðfæddan hæfileika og rétt til að gera hina mestu hamingju að raunveruleika í lífi sínu.

[SGI Quarterly, apríl 2000]


 

bottom of page