top of page

Búddismi í daglegu lífi

Viska

Búdda er lýst sem persónu sem býr yfir djúpstæðri visku. Hugmyndin um visku er grunnur í búddismanum.

Viska getur þó verið óljóst og torskilið hugtak, erfitt að skilgreina og erfiðara að finna. Hvernig verður maður vitur? Er viska eitthvað sem við getum þróað á virkan hátt eða verðum við eingöngu að bíða þess að verða vitrari með aldrinum? Vegna þess hve viskan er óljóst hugtak, hefur hún ef til vill misst gildi sitt sem hugtak sem skiptir máli í nútíma samfélagi sem hefur í staðinn lagt áherslu á öflun upplýsinga og þekkingar.

Josei Toda, annar forseti Soka Gakkai, lýsti ruglingnum á milli þekkingar og visku sem einum af megin veikleikum nútíma samfélags.
 

Það má augljóslega sjá hvað hann á við er við lítum á undraverðar framfarir tækninnar á síðustu öld. Á meðan vísinda- og tækniþróun getur aðeins státað af misvísandi árangri er varðar getu til að draga úr mannlegri þjáningu, þá hefur þróun á þessum sviðum unnið ótrúlega sigra er kemur að getu og afköstum til að valda dauða og eyðileggingu.

Toda líkti skyldleika þekkingar og visku við vatnsdælu og vatn. Vatnsdæla sem nær ekki að dæla vatni (þekking án visku) er til lítils gagns.

Hér er ekki verið að hafna mikilvægi þekkingar. Þekkingu má jafnt nota til gríðarlegrar eyðileggingar og á mjög jákvæðan hátt.
 

Viska er það sem beinir þekkingunni í átt til góðs – í átt að gildissköpun.

Búddískar kenningar, eins og hugtakið fimm tegundir visku, lýsa og skilgreina í smáatriðum flæði viskunnar og hvernig hún birtist á mismunandi stigum vitundar okkar.

Þegar viskan er að verki í lífi okkar gerir hún okkur kleift að yfirstíga rótgróin sjónarmið venjubundinnar hugsunar okkar og sjá heildarmyndina í nýju ljósi. Við verðum fær um að meta staðreyndir, skilja kjarna málsins og beina okkur af öryggi í átt til hamingju.

Búddisminn líkir einnig visku við hreinan spegil sem sýnir veruleikann fullkomlega eins og hann er. Það sem þessi spegill viskunnar endurspeglar eru innbyrgð og samháð tengsl lífs okkar við allt líf. Þessi viska upprætir blekkingu okkar um aðskilnað og vekur með okkur vitund um hluttekningu og jöfnuð allra lifandi vera.

Hugtakið „búdda“ lýsir einstaklingi sem á eðlilegan hátt birtir meðfædda visku sína. Það sem fær þessa visku til að streyma fram í lífi okkar er samkennd. 

Búddisminn sér alheiminn og lífið sjálft sem birtingarmynd samkenndar, þar sem „þræðir“ samháðra fyrirbæra fléttast saman, skapa og næra lífið í öllum sínum undursamlegu og mismunandi birtingarformum.

Hann kennir að tilgangur mannlegs lífs sé að vera virkur þátttakandi í þessu mikla gangverki samkenndar í alheiminum til að auðga og bæta skapandi kraft lífsins.

Þess vegna er það að þegar athafnir okkar stjórnast af samkennd þá færist líf okkar í samræmi við lífskraft alheimsins og við birtum okkar eðlislægu visku. Að uppörva aðra og deila von með þeim vekur okkur til meðvitundar um stærra, óháðara sjálfs okkar umfram þrönga takmörkun litla sjálfsins (egós). Viska og samkennd eru þess vegna óaðskiljanleg.

Sjálfsagi, sú viðleitni að „verða meistari eigin huga“ er miðlægur þáttur í búddískri ástundun. Þessi hugmynd gefur í skyn að því ákafar sem við leggjum okkur fram við að þroska með okkur óeigingjarnt hugarfar, þeim mun meira vaknar viska búdda innra með okkur. Um leið getum við betur beint öllum eiginleikum, þekkingu okkar, hæfileikum okkar og einstæðum sérkennum persónuleika okkar, í átt að því að skapa hamingju fyrir okkur sjálf og aðra.

Í ræðu sinni við Tribhuvan háskólann í Nepal, árið 1995, sagði Daisaku Ikeda, forseti SGI, „að vera meistari eigin huga merkir að leggja rækt við þá visku sem býr í innri afkimum lífs okkar og streymir fram af óþrjótandi gnægð, aðeins þegar sá samúðarfulli ásetningur að þjóna mannkyninu, að þjóna fólki, snertir við okkur.“

Ef saga mannkyns á að breytast og beinast frá sundrung og átökum í átt að friði og djúpri virðingu fyrir helgi lífsins, þá eru það manneskjurnar sjálfar sem þurfa að breytast. Búddískur skilningur á samúðarfullri visku getur þjónað sem öflugur grunnur fyrir slíka umbreytingu.

[SGI Quarterly, októberhefti, 2001]

bottom of page